Lög og reglur um náttúruvernd

 

Lög um náttúruvernd nr. 44/1999 eru hér í heild sinni en við viljum sérstaklega benda hestamönnum á ferðalögum á eftirfarandi lagagreinar:

 

12. grein:

"Réttindi og skyldur almennings.

 Almenningi er heimil för um landið og dvöl þar í lögmætum tilgangi.

 Öllum er skylt að ganga vel um náttúru landsins og sýna ýtrustu varúð þannig að henni verði ekki spillt."

 

13. grein:

"För um landið og umgengni.
 Á ferð sinni um landið skulu menn sýna landeiganda og öðrum rétthöfum lands fulla tillitssemi, virða hagsmuni þeirra, m.a. vegna búpenings og ræktunar, þar á meðal skógræktar og landgræðslu, og fylgja leiðbeiningum þeirra og fyrirmælum varðandi ferð og umgengni um landið.

 Fara skal eftir merktum leiðum og skipulögðum stígum og vegum eftir því sem auðið er, hlífa girðingum, fara um hlið eða göngustiga þegar þess er kostur og ef farið er um lokuð hlið skal loka þeim eftir að gengið hefur verið um þau. Sérstök aðgát skal höfð í nánd við búsmala, selalátur, varplönd fugla, veiðisvæði og veiðistaði.

 För manna um landið er ekki á ábyrgð eiganda lands eða rétthafa að öðru leyti en því sem leiðir af ákvæðum annarra laga og almennum skaðabótareglum."

16. grein:

"Umferð ríðandi manna.

 Þegar farið er ríðandi um landið skal fylgt skipulögðum reiðstígum eins og kostur er.  Á ferð um hálendi og önnur lítt gróin svæði skulu menn hafa tiltækt nægilegt aðflutt fóður fyrir hross sín.

 Heimilt er mönnum, að fengnu leyfi eiganda eða rétthafa eignarlands þegar við á, að slá upp aðhöldum eða næturhólfum, enda valdi það ekki spjöllum á náttúru landsins. Á hálendi skal þeim valinn staður á ógrónu landi sé þess kostur.

 Þar sem svo háttar til skal haft samráð við landverði eða umsjónaraðila á staðnum þegar farið er um eða dvalist á náttúruverndarsvæðum, sbr. IV. kafla.

 Umhverfisráðherra getur sett í reglugerð nánari ákvæði um umferð ríðandi manna og rekstur hrossa."

 

22. grein:

"Skipulagðar hópferðir.

 Þegar skipulagðar eru hópferðir í atvinnuskyni um eignarlönd skal hafa samráð við eiganda lands eða rétthafa um umferð manna og dvöl á landi hans. Eftir því sem við verður komið skal tjalda á skipulögðum tjaldsvæðum sé gert ráð fyrir að gista í tjöldum í ferðinni."

 

Í reglugerð um takmarkanir á umferð í náttúru íslands nr. 528/2005 eru frekari ákvæði (sbr. síðustu málsgrein 16 greinar hér að ofan) um umferð ríðandi manna:

 

7. grein:

"Umferð ríðandi manna og rekstur hrossa.

Þegar farið er ríðandi um landið skal fylgt skipulögðum reiðstígum eins og kostur er. Á ferð um hálendi og önnur lítt gróin svæði skulu menn hafa tiltækt nægilegt aðflutt fóður fyrir hross sín.

Heimilt er, að fengnu leyfi eiganda eða rétthafa eignarlands þegar við á, að slá upp aðhöldum eða næturhólfum, enda valdi það ekki náttúruspjöllum. Á hálendi skal þeim valinn staður á ógrónu landi sé þess kostur.

Þar sem svo háttar til skal haft samráð við landverði eða umsjónaraðila á staðnum um leiðarval og áningarstaði þegar farið er um eða dvalist á náttúruverndarsvæðum.

Þegar farið er eftir gömlum þjóðleiðum þar sem þær eru markaðar í landið skal eigi teyma fleiri hross en svo að þau rúmist innan slóðar, ellegar reka hross þannig að þau lesti sig. Bannað er að reka hrossastóð yfir gróið land þannig að náttúruspjöll hljótist af eða hætta skapist á náttúruspjöllum."

 

 

 

Hestamannafélagið Glaður, Sunnubraut 7, 370 Búðardal. Tölvupóstur: Formaður | Vefstjóri