Hófadynur í Dölum
Hófadynur í Dölum:

Allt ritið (4 MB)

1. hluti (0,4 MB)

2. hluti (1 MB)

3. hluti (1,5 MB)

4. hluti (1 MB)

Gamlar fundargerðir :

Úr sögu félagsins

 

Hestamannafélagið Glaður var stofnað í þinghúsi Miðdalahrepps á Nesodda þann
20. júlí árið 1928. Dalamenn voru að því því leitinu frumkvöðlar að þetta var annað hestamannafélag landsins, aðeins Fákur sem stofnaður var 1922, er eldri. Þetta voru miklir uppgangstímar í félagsstörfum almennt, vakning var í ungmennafélagahreyfingunni og hinn sanni félagsandi sveif yfir Dölum. Stofnfélagar Glaðs voru 17 (sjá fundargerð) en reyndar voru það 18 menn sem fyrr sama dag höfðu undirritað sérstaka yfirlýsingu eða skuldbindingu um að stofna félagið og að gerast félagar í því. Félagið skyldi hafa “það að stefnuskrá að vinna að efling áhuga manna í Dalasýslu um þau mál, er hesta varðar og hestaíþróttir.” Nokkrar hugmyndir komu fram að nafni félagsins, þar á meðal Gyllir, Gulltoppur, Svanur, Víkingur, Haukur og fleiri góð nöfn en samþykkt var að nefna félagið Hestamannafélagið Glaður. Fyrsti formaður þess var Jón Sumarliðason hreppstjóri á Breiðabólsstað. Félagsmönnum fjölgaði jafnt og þétt eftir stofnun félagsins og árið 1943 voru þeir orðnir 80 talsins úr öllum sveitum sýslunnar.

 

Forgöngumenn félagsins beittu sér strax á fyrstu árum þess fyrir því að ruddur var skeiðvöllur á bökkum Miðár austan við Nesodda þar sem einnig var þing- og samkomuhús sveitarinnar. Fyrstu kappreiðarnar voru haldnar þar 22. júlí 1928 og síðan árlega. Dansleikir voru haldnir á Nesodda að loknum hestaþingum. Frásagnir eru til um fyrirkomulag dansleikjanna á fyrri árum. Var danstímanum skipt þannig að danssalur var ruddur á klukkustundarfresti. Gat það tekið nokkra stund en að því loknu var byrjað að selja inn aftur. Keppandi í braut og áhorfendur í brekkunni á Oddanum Mun slíkt form dansleikja ekki hafa verið almennt stundað. Fólk úr nágrannahéruðum sótti alltaf Nesoddamótin, einkum Borgfirðingar og Mýramenn en seinna fóru flokkar hestafólks og annarra að koma víðar að. Burtfluttir Dalamenn sóttu einnig Dalina heim til að fara á Oddann. Víst er um það að frá mörgum Nesoddamótum áttu margir ljúfar minningar þar sem saman fléttuðust kynni við fólk og fagra hesta en umgjörðin grænir vellir og hlíðar í hásumardýrð.

 

Svarfhóll í Miðdölum, ljósm. Stefán BergþórssonÁrið 1972 keypti hestamannafélagið jörðina Svarfhól í Miðdölum og var jörðin til afnota fyrir tamningastöð. Félagsmenn unnu við viðhald girðinga og húsa, leigðu út tún til sláttar og einnig afnot af graðhestagirðingu. Eftir að starfræksla tamningarstöðvar lagðist niður að Svarfhóli leigði félagið út aðstöðu fyrir ferðaþjónustu fyrir ferðahópa á hestum. Jörðin hefur nú verið seld.

 

 

Hófgerði 2, félagshestús Glaðs um árabil, ljósm. Stefán Bergþórsson

Félagar í Glað voru stórhuga og réðust í byggingu hesthúss í Búðardal árið 1982. Var það fyrstu árin leigt út til ýmissa aðila sem ráku þar tamningastöð. Síðustu árin sem húsið var í eigu félagsins leigðu það félagsmenn til almennra afnota.

 

(Textinn hér að ofan er að mestu byggður á texta Gyðu Lúðvíksdóttur)

 

Eftir að félagið seldi Svarfhól og síðar félagshesthúsið voru til nokkrir fjármunir sem ákveðið var skyldu renna til uppbyggingar keppnisaðstöðu í Búðardal. Nýr og vandaðaður keppnisvöllur var tekinn í notkun veturinn 2005 þó ófullgerður væri og svo vígður á Bikarmóti Vesturlands sumarið 2006. Nú hefur einnig verið reist þar reiðhöll og er hún í mikilli notkun þó talsvert sé enn óunnið þar.

 

Nánar má fræðast um sögu Hestamannafélagsins Glaðs í ritinu "Hófadynur í Dölum" sem félagið gaf út á 60 ára afmæli sínu árið 1988 í ritstjórn Einars Kristjánssonar. Ritið er enn til í nokkru magni og fáanlegt hjá stjórn. Nú er einnig búið að skanna allt ritið inn og hægt að nálgast það hér á vefnum annað hvort í einu lagi eða í 4 hlutum, sjá tengla hér ofarlega hægra megin á síðunni.

 

Hér hægra megin á síðunni má nálgast elstu fundargerðir félagsins. Stefnt er að því að bæta við þetta og langtímamarkmið er að allar fundargerðir félagsins verði aðgengilegar hér á vefnum. Það er þó mikil vinna að skanna þetta inn og breyta í pdf skjöl svo við verðum að sjá hvernig það gengur.

Hestamannafélagið Glaður, Sunnubraut 7, 370 Búðardal. Tölvupóstur: Formaður | Vefstjóri